Með stýrðum innri aðgerðum getur N1 lagt sitt af mörkum til að auka áhuga, eftirspurn og framboð á umhverfisvænni vörum.
Birgjar
Ísland er nærsamfélag og vegna smæðar flokkast það sem eitt markaðssvæði. Með stýrðum innri aðgerðum getur N1 lagt sitt af mörkum til að auka áhuga, eftirspurn og framboð á umhverfisvænni vörum og það er ein af þeim leiðum sem N1 fer til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í aðfangakeðju sinni. N1 kappkostar að kaupa aðeins vistvænar rekstrarvörur, auka lausasölu þar sem það er hægt og minnka og helst útrýma notkun plastpoka. N1 er aðili að Innkaupaneti Umhverfisstofnunar en markmið þess er að stunda vistvæn innkaup, auka eftirspurn og framboð á umhverfismerktum vörum og þjónustu og auka áhuga fyrirtækja á umhverfismálum og umhverfismerkjum.
N1 hefur átt margra ára farsælt samstarf við flesta sína helstu birgja. Margir þeirra eru leiðandi framleiðendur með hágæðavörur á sínum markaði í heiminum, svo sem Exxon Mobil, Michelin, Q8, Cooper, Tork, Dimex, UVEX, Jalas, Fristad og Banner.
Hluti af innkaupastefnu N1 er að fara ekki í samstarf við nýja birgja nema þeir uppfylli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem sérstaklega er tekið á barnaþrælkun, nauðungarvinnu, vinnuaðstöðu og lengd vinnutíma. Allir birgjar utan ESB hafa verið metnir af N1 og hafa staðfest að þeir vinni samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ekki var stofnað til viðskiptasambands við nýja birgja utan ESB á liðnu ári. Í samræmi við efnalög nr. 61/2013 flytur N1 eingöngu inn efnavörur og olíur frá birgjum með REACH vottanir. Öryggisblöð í samræmi við CLP reglugerð nr. 415/2014, fyrir allar varnaðarmerktar vörur í sölu hjá fyrirtækinu eru aðgengilegar á heimasíðu N1.
Birgjar sem selja N1 eldsneyti og eldsneytistengdar vörur eru erlendir að undanskildu metan og lífdísil sem er innlend framleiðsla. Innkaup frá innlendum birgjum er óbreytt milli áranna 2016 og 2017.
N1 flytur inn efnavöru til eigin framleiðslu og lausasölu til viðskiptavina, helstu vörur eru rúðuvökvi, olíuhreinsir, tjöruhreinsir og dekkjahreinsir.
Birgjar 2017
Innlendir birgjar: 63% Erlendir birgjar: 37%
Birgjar 2016
Innlendir birgjar: 63% Erlendir birgjar: 37%
Birgjar 2015
Innlendir birgjar: 57% Erlendir birgjar: 43%
Ánægjulegt er að sjá að annað árið í röð er aukning í sölu efnavöru í lausu milli áranna 2016 og 2017, sjá töflu. Þá var 61% af vörunni selt í lausu beint til viðskiptavina en 39% af framleiðslunni er pakkað í 1 l, 2,5 l, 5 l, 20 l og 200 l neytendapakkningar. Engar af þessum umbúðum bera skilagjald. N1 hefur stóraukið sölu í lausu undanfarin ár og þá sérstaklega sölu á rúðuvökva en fyrir 10 árum var öll þessi vara seld í neytendapakkningum. Hefur því náðst gífurlegur árangur í að minnka notkun umbúða og eykst hlutfall sölu í lausu á hverju ári.
Efnavörur í eigin framleiðslu201520162017Lausasala53%57%61%Sett í neytendapakkningar47%43%39%
Rekstrarvörubirgjar sem sjá N1 fyrir vörum til eigin nota og fyrir viðskiptavini hafa allir verið metnir af fyrirtækinu með tilliti til umhverfisáhrifa. Hreinlætisvörubirgir N1 er Essity (Tork) sem er með viðamikla umhverfisstefnu. Um 90% af öllum hreinlætisvörum sem N1 kaupir af Essity eru vottaðar og bera Svansmerkið, Evrópublómið eða Bláa engilinn. Einnig er mikið af þeim framleiðslueiningum Essity sem N1 kaupir með FSC vottun um sjálfbæra skógrækt.
Fatabirgjar N1 hafa verið vandlega skoðaðir með tilliti til umhverfisstefnu sinnar og ábyrgðar gagnvart þeirri starfsemi sem tengist framleiðslu, neyslu og förgun vara.
ExxonMobil selur N1 hágæða syntetískar olíur sem hafa lengri líftíma og þar af leiðandi minni umhverfisáhrif. Birgjar sem þjónusta ISO 14001 vottaðar starfsstöðvar N1 hafa undirgengist birgjamat í samræmi við kröfur N1 og staðalsins.
Hreingerningarfyrirtæki sem N1 verslar við eru Svansvottuð eða með sambærilegar vottanir þar sem því er við komið.
Birgjar N1 gera margir hverjir gagnkvæmar kröfur til N1 um að standast ákveðin skilyrði til að fá leyfi til að selja vörur þeirra, svo sem að þjálfun starfsfólks uppfylli kerfisbundna staðla þeirra. Dæmi um það er ExxonMobil sem gerir þá kröfu til N1 að meðhöndlun vöru fyrirtækisins frá móttöku til afhendingar sé samkvæmt skilgreindu ferli og einnig að N1 uppfylli kröfur til umhverfis-, öryggis-, starfsmanna- og frábrigðamála en það ferli er tekið út árlega. Michelin bauð N1 að fara í gegnum gæðakerfi sitt fyrir nokkrum árum síðan. N1 fagnaði því tækifæri og innleiddi Michelin-staðal á hjólbarðaverkstæði félagsins vottaðan af SCA í Danmörku. Michelin gerir strangar kröfur til þjálfunar, þjónustu, tækja og aðbúnaðar, öryggis-, umhverfis- og starfsmannamála.
Um 90% af öllum hreinlætisvörum sem N1 kaupir af Essity eru vottaðar og bera Svansmerkið, Evrópublómið eða Bláa engilinn. Einnig er mikið af þeim framleiðslueiningum Essity sem N1 kaupir með FSC vottun um sjálfbæra skógrækt.