Fjárhagsleg frammistaða 2017

Heimsmarkaðsverð á olíu og gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum, einkum bandaríkjadollar, hefur alltaf veruleg áhrif á reksturinn.

Fjárhagsleg frammistaða 2017

Heimsmarkaðsverð á olíu og gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum, einkum bandaríkjadollar, hefur alltaf veruleg áhrif á reksturinn. Helstu áhrifavaldar í þróun heimsmarkaðsverðs olíu eru þó í venjulegu árferði árstíðabundnar eftirspurnarsveiflur, efnahagslegar aðstæður á stærstu olíumörkuðum heimsins og  aðgengi að olíulindum. Gengi krónunnar endurspeglast annars vegar af innri áhrifum í íslenska efnahagskerfinu og hins vegar alþjóðlegu umhverfi svo sem gengi dollars gagnvart evru.

Þróun heimsmarkaðsverðs á olíu á árinu hafði jákvæð áhrif á afkomu félagsins. Á árinu 2017 hækkaði heimsmarkaðsverð á bensíni um 14% og á sama tíma lækkaði gengi dollars gagnvart krónu um 9,5%. 

Afkoma

Hagnaður N1 árið 2017 nam  2.071 millj. kr., samanborið við 3.378 millj. kr. árið 2016. Grunnhagnaður og þynntur hagnaður á hlut nam 8,28 kr. árið 2017, samanborið við 9,74 kr. árið áður. Rekstrartekjur félagsins árið 2017 námu 35.050 millj. kr. samanborið við 34.139 millj. kr. árið áður. Það er 2,71% hækkun á milli ára. Framlegð af vörusölu jókst um  1,2% á milli ára sem sem skýrist að mestu af auknum umsvifum á einstaklingsmarkaði og í bílaþjónustu. EBITDA var 3.535 millj. kr. árið 2017 samanborið við 3.625 millj. kr. árið áður. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 5 millj. kr. á árinu og neikvæðir um 22 millj. kr. á árinu 2016.

Fjárhæðir eru í þúsundum króna

EBITDA & EBITDA/Framlegð

Opinber gjöld

Opinber gjöld skiptast í virðisaukaskatt, skatta á eldsneyti og aðrar vörur og launatengd gjöld. N1 greiddi 16.563  millj. kr. í opinber gjöld árið 2017 samanborið við 16.138 millj. kr. árið 2016, sem jafngildir 2,6% hækkun á milli ára. Árið 2017 greiddi félagið að meðaltali 1.380 millj. kr. á mánuði í opinber gjöld eða rúmlega 45 millj. kr. á dag.

Rekstrargjöld

Laun og annar starfsmannakostnaður

Stöðugildi voru 507 í árslok 2017 en voru 502 árið áður. Starfsmannafjöldi var að meðaltali 545 en 532 árið áður sem er aukning um 2% og skýrist hækkunin af auknum umsvifum á einstaklingsmarkaði og í bílaþjónustu. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 4.554 millj. kr.  árið 2017, samanborið við 4.234 millj. kr. árið áður. Laun og annar starfsmannakostnaður hækkaði því um 8% á milli ára en hækkunin er vegna samningsbundinna launahækkana samkvæmt kjarasamningum.

Fjármagnsliðir

Hreinn fjármagnskostnaður var 5 millj. kr. á árinu 2017 en 22 millj. kr. árið áður. Fjármunatekjur lækkuðu um 45% á milli ára og voru fjármagnsgjöld  15% lægri en árið áður. Lækkun á fjármunatekjum var 75 millj. kr. sem má að mestu rekja til lægri stöðu handbærs fjár og lægri innlánavaxta. Gengishagnaður var  23 millj. kr. árið 2017 á móti 2 millj. kr. gengistapi árið áður.

Sölu- og dreifingarkostnaður

Sölu- og dreifingarkostnaður nam 2.059 millj. kr. árið 2017, samanborið við 2.079 millj. kr. árið áður sem er 1% lækkun. Viðhaldskostnaður lækkaði um 26 millj. kr. og markaðskostnaður um 11 millj. kr.

Afskriftir

Afskriftir námu 1.007 millj. kr. árið 2017, samanborið við 773 millj. kr. árið 2016.

Annar rekstrarkostnaður

Annar rekstrarkostnaður nam 1.634 millj. kr. árið 2017, samanborið við 1.635 millj. kr. árið en hann hefur breyst óverulega milli ára.

Efnahagsreikningur

Bókfært verð eigna félagsins í árslok 2017 nam 27.656 millj. kr. samanborið við 25.622 millj. kr. árið áður en hækkunin skýrist að mestu af hækkun á fastafjármunum. Eigið fé í lok árs 2017 var 13.812 millj. kr., en var 12.572 millj. kr. í lok árs 2016. Eiginfjárhlutfall var 49,9% í lok árs 2017, samanborið við 49,1% í lok árs 2016. Í lok árs 2017 námu heildarskuldir 13.845 millj. kr. samanborið við 13.050 millj. kr. árið áður.

Eignir

Fastafjármunir

Óefnislegar eignir félagsins námu 215 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 258 millj. kr. árið áður en afskriftir ársins vegna óefnislegra eigna námu 53  millj. kr. og keyptur hugbúnaður 10 millj. kr. Óefnislegar eignir félagsins samanstanda af hugbúnaði að fjárhæð 100 millj. kr. og eignfærðum keyptum vörumerkjum að fjárhæð 115 millj. kr. Rekstrarfjármunir félagsins námu 16.940  millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 15.773 millj. kr. árið áður. Hækkunin er að mestu vegna kaupa félagsins á Klettagjörðum 13. Afskriftir ársins af rekstrarfjármunum námu 954 millj. kr. og viðbætur 2.516 millj. kr.

Í lok árs 2012 seldi N1 FAST2 ehf. fasteignina að Klettagörðum 13. Samhliða sölunni leigði félagið eignina til baka til 10 ára með kauprétti að henni eftir 5 ár og aftur í lok leigutíma á framreiknuðu söluverði. Í september 2017 nýtti N1 kaupréttinn og keypti fasteignina á 1.653 m.kr.

Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum og öðrum félögum námu 1.856 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 1.764 millj. kr. árið áður sem er hækkun um 91 millj. kr. eða 5% á milli ára. Hækkunin er vegna hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga.

Veltufjármunir

Veltufjármunir félagsins námu 8.525 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 7.768 millj. kr. árið áður. Hækkunin skýrist af auknu handbæru fé og hækkun viðskiptakrafna og krafna á tengd félög. Veltufjárhlutfall félagsins var 1,96 í árslok 2017, samanborið við 1,59 árið áður.

Rekstrarfjármunir

Birgðir félagsins lækka milli ára og námu 2.840 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 3.027 millj. kr. árið áður. Eldsneytisbirgðir í árslok 2017 námu 1.582 millj. kr., samanborið við 1.730 millj. kr. árið áður sem er  9% lækkun á milli ára. Birgðir annarra vara lækkuðu um 3% á milli ára en þær námu 1.258 millj. kr. í árslok 2017 samanborið við 1.297 millj. kr. árið áður.

Birgðir

Viðskiptakröfur

Viðskiptakröfur námu 2.595 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 2.303 millj. kr. árið áður sem er  13% hækkun á milli ára.

Skuldir

Langtímaskuldir

Vaxtaberandi langtímaskuldir félagsins námu 8.000 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 6.500 millj. kr. árið áður. Félagið tók langtímalán vegna kaupa sinna á fasteigninni á Klettagörðum 13 fyrir 1.500 millj.kr. á árinu. Félagið er með óverðtryggt langtímalán og er endurgreiðslutími lánanna miðaður við 20 ár en lánstími 9 ár. Langtímalán er án afborgana fram til nóvember 2021.

Skammtímaskuldir

Skammtímaskuldir félagsins námu 4.360 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 4.900 millj. kr. árið áður. Þetta er lækkun frá fyrra ári um 11% sem að mestu má  rekja til skammtímaláns sem greitt var á árinu 2017.

Skuldsetning

Eigið Fé

Eigið fé félagsins nam 13.812 millj. kr. í árslok 2017, samanborið við 12.572 millj. kr. árið áður en það er 10% hækkun á milli ára. Arðgreiðslur til hluthafa félagsins á árinu 2017 námu 750 millj. kr. (3,0 kr. á hlut).  Eiginfjárhlutfall félagsins var 49,9% í árslok 2017, samanborið við 49,1% árið áður.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri árið 2017 var 2.376 millj. kr., en 3.478 millj. kr. árið 2016. Fjárfestingarhreyfingar á árinu 2017 námu 2.268 millj. kr. og fjármögnunarhreyfingar 393 millj. kr.