Ávarp
Margrét Guðmundsdóttir stjórnarformaður og Eggert Þór Kristófersson forstjóri N1 hf.
Árið 2017 var gott ár í rekstri félagsins ekki síst vegna þess að framhald varð á aukningu ferðamanna til landsins þrátt fyrir minni vöxt en á síðustu árum. Mikil þróun hefur verið í innlendri verslun á síðustu misserum og tók félagið þátt í henni með kaupum á Festi hf. sem rekur meðal annars Krónuna og Elko, en nú er beðið eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins. Eins og undanfarin ár var lögð áhersla á áframhaldandi hagræðingu á öllum sviðum en ljóst er að innlendar kostnaðarhækkanir eru orðnar miklar og þrýstingur á frekari kostnaðarhækkanir vofir yfir. Kaupin á Festi er stórt skref í þeirri vegferð að tryggja hagræðingu í rekstri.
Samfélagið
N1 hefur lagt ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og hefur sú afstaða félagsins endurspeglast í öllum rekstri þess og stuðningi við samfélagið sem við störfum í. Það var því mikill heiður og ánægja að N1 skyldi fá viðurkenningu Creditinfo, fyrst félaga á Íslandi, fyrir samfélagslega ábyrgð. Þetta er sérstaklega ánægjulegt fyrir þær sakir að starfsemi N1 er víðtæk og nær til alls landsins þar sem stór hluti bæði landsmanna og ferðamanna eru daglega í tengslum við félagið.
Á árinu undirritaði N1 samstarfssamning við Orku náttúrunnar um uppsetningu og þjónustu rafhleðslustöðva sem settar voru upp við þjónustustöðvar félagsins. Markmiðið með samningnum er að gera viðskiptavinum N1 kleift að ferðast hringinn í kringum landið á rafmagnsbílum og njóta í leiðinni veitinga á Nestisstöðvum N1. Samstarfið við ON á árinu var afar farsælt en um mitt árið gátu viðskiptavinir N1 hlaðið rafmagnsbíla sína á þjónustustöðvum milli Reykjavíkur og Akureyrar og áfram til Egilsstaða.
Enn á ný er N1 leiðandi á umhverfisvænum lausnum fyrir bifreiðaeigendur, enda fyrst olíufélaga til að hefja sölu á metani og innlendum biodísil en í áraraðir höfum við blandað bætiefnum í bæði dísil og bensín.
Samkvæmt umhverfisstaðlinum ISO 14001 og umhverfisstefnu N1 höfum við haldið áfram að votta þjónustustöðvar okkar. Alls nítján stöðvar hafa nú hlotið vottun og er stefna félagsins að allar þjónustustöðvar N1 fái ISO vottun. Sjónum hefur einnig verið beint að viðskiptavinum sem koma inn á stöðvarnar og áhersla lögð á að bæta gæði veitinga með hollustu í huga. Samstarf við íslenska bændur um markaðssetningu á lambakjöti og aukin áhersla á vegan valmöguleika eru liðir í þeirri þróun. Einnig er aðfangakeðja félagsins í sífelldri endurskoðun með tilliti til samfélagslegrar ábyrgðar og nær endurskoðunin til allra deilda.
Rekstur N1 gerir kröfu um að allt starfsfólk hafi sterka vitund um umhverfis- og öryggismál. Til að viðhalda þekkingu starfsmanna á þessu sviði hefur N1 haldið öryggismánuð í febrúar undanfarin sex ár. Þá eru uppfærðar neyðar- og viðbragðsáætlanir, einkum tengdar umhverfi og öryggi, ásamt rekstri og öryggi starfsfólks. Í öðrum stöðlum sem fyrirtækið uppfyllir, svo sem frá Michelin og ExxonMobil, er einnig lögð rík áhersla á umhverfismál og meðhöndlun úrgangs.